Englareiki heilun
Hvað er heilun og hvað er Englareiki heilun?
Sennilega er kannski best að tala um heilun sem meðferðarform sem er ætlað að hafa áhrif á orkuflæðið sem rennur um orkukerfi líkama okkar. Hugmyndafræðin sem liggur á bak við þetta meðferðarform er að um líkamann flæðir ósýnileg orka um orkubrautir og orkustöðvar sem einskorðast ekki einungis við líkamann heldur flæðir einnig fyrir utan hann og myndar orkusvið sem umlykur líkamann.
Englareiki er heilun sem veitt er með vígðum heilara. Heilarinn er einskonar millistykki eða aðstoð milli heilunarorku og einstaklings og kemur heilunin beint frá orkuuppsprettu alheimsins til viðkomandi. Í raun er heilarinn að hjálpa viðkomandi að heila sig sjálfur með aðstoð frá alheimsorkunni og er hlutverk heilara að finna truflun, vanvirkni, hindrun, bilun sár og/eða ör í orkubrautum, orkustöðvum eða orkusviðum. Það er til dæmis gert með handayfirlagningu eða öðrum slíkum ráðum koma jafnvægi á orkukerfin sem styðja við heilbrigði einstaklingsins.
Heilunarorkan er orka, sem oftast er nefnd “lífsorkan” á íslensku, “qi” í kínversku, “ki” í japönsku og “prana” í indversku. Heilun hefur lengið verið notuð til að hjálpa fólki og er þetta form eitt af elstu formum lækninga og er heilun mikilvægur þáttur í austurlenskum lækningum sem eru ein elstu lækniskerfi í heiminum, og hér erum við að ræða um þau indverskum og kínverskum. Í gegnum tíðina hefur mikill fjöldi af ólíkum heilunaraðferðum orðið til sem allar leitast við að hjálpa okkur og hafa áhrif á orkulíkamann okkar. Þessi orka er allt um kring og umliggjandi. Heilunin er mjög öflug meðferð með miklu flæði sem heldur áfram að vinna næstu sólarhringa á eftir. Englareiki heilun er ein slík tegund af heilun.
Í englareiki heilun er unnið með englum en líka um leið er unnið með fleiri ljósverum, aldrei alveg hægt að segja fyrirfram hvernig hver tími er. Englareiki er mjúk en um leið kraftmikil, árangursrík og áhrifarík aðferð sem virkjar lækningamátt líkamlegrar og andlegrar vitundar einstaklingsins sem er að þiggja heilunina. Ávallt er 100% trúnaður og traust með virðingu og kærleika milli heilarans og þyggjanda.
Hver er ávinningur heilunarinnar?
Margir sem hafa komið í englareiki til mín finna fyrir mun meiri jarðtengingu, innri ró, slökun, jákvæðni og jafnvel betri svefn. Sumir hafa talað um að heilun hjálpi sem verkjastilling eða þeir verði verkjaminni (jafnvel verkjalausir), eiga auðveldara með andardrátt og finni fyrir meiri liðleika í líkamanum. Einnig hef ég heyrt frá viðskiptavinum að þeir finni fyrir meiri orkuflæði og starfsþreki. Að þiggja heilun hjálpar mörgum að eiga við og takast á við svefnleysi, höfuðverk, streitu, kvíða og depurð svo eitthvað sé nefnt.
Heilun getur veitt okkur eðlilegt og náttúrulegt heilbrigði fyrir líkama og sál og um stutt líkamann í sjálfsheilun sem getur virkar vel á alla verki í líkamanum sem og andlega vanlíðan. Hreinsun úrgangsefna verður hraðari, sérstaklega fyrir þá sem eru að hætta að reykja.
Mjög algengt er að eftir heilun þurfi viðkomandi að hvílast og sofa, það er alveg eðlilegt. Vegna þess að mikið orkuflæði og vinna er í gangi. Jafnvel orkuskipti.
Ég hef smám saman þróað mína leið sem samanstendur af nokkrum áhrifaríkum aðferðum. Hver stund er einstök og ekki alltaf það sama sem á við, t.d. nota ég ekki alltaf tónkvísl eða tónskálina. Þetta stýrist algjörlega af þeim skilaboðum sem ég fæ og orkunni sem er í gangi. Stýrð hugleiðsla í upphafi, orkustöðvar skoðaðar, tónkvísl, englareiki og svo fær tónskál oft að hljóma í lokin, er til dæmis dæmigerð stund hjá mér. Gott er samt að hafa í huga að enginn heilari vinni alveg eins, allir hafa sinn takt og aðferð. En allir eru að vinna að sama markmiðinu, sem er heilun. Munið ávallt að heilunarmeðferð kemur ekki í staðinn fyrir lækna eða lyf.
Hvernig virkar þessi heilun eiginlega?
Við byrjum hvern tíma með samtali. Í fyrsta tímanum útskýri ég hvernig þetta fer fram og svara þeim spurningum sem leita á huga viðkomandi. Ef viðkomandi er með eitthvað ákveðið sem hann óskar að skoða eða láta vinna með þá er gott að taka það fram á þessum tímapunkti. En ef það er ekkert sem viðkomandi er að velta fyrir sér þá leyfum við því að gerast og koma sem vill, þarf og á að gerast.
Í englareiki liggur einstaklingur á bekk/sófa /rúmi eða situr í góðum stól. Heilarinn leggur síðan hendur á einstaklinginn og þá hefst orkuflæðið. Hjá mér byrjum við fyrst á að fara saman í gegnum stýrða hugleiðslu. Þar á eftir er það heilunin sjálf og í lokin drögum við spil og gerum svo upp stundina, í samtali, því upplifun hverrar stundar er aldrei alveg nákvæmlega eins í hvert sinn. Mjög oft og reglulega fæ ég skilaboð til viðkomandi í gegnum heilunina.
Hver stund er einstök upplifun sem flestir ættu að prófa að minnsta kosti einu sinni. Mælt er þó með að koma að minnsta kosti í þrjú skipti til að heilunin haldi góðu flæði.